Í lok júlí voru sendar flugleiðis til Grænlands um 6000 skógarplöntur sem ræktaðar voru á Hallormsstað. Sendar voru um 14 tegundir m.a. fjallafura, japansgreni, fjallerki og blágreni. Plönturnar verða gróðursettar í trjásafnið í Narsarsuaq við Eiríksfjörð á suður Grænlandi. Þar hafa verið tilraunir í áratugi með erlendar tegundir frá norðlægum slóðum.

Safnið, sem er í birkiskógi skammt frá flugvellinum í Narsarsuaq, verður formlega vígt 3. ágúst næstkomandi af Josef Motzfeldt fjármálaráðherra Grænlensku heimastjórnarinnar, í tengslum við ársfund norrænu trjásafnsnefndarinnar sem haldinn er á Grænlandi að þessu sinni. Þór Þorfinnsson skógarvörður á Austurlandi verður viðstaddur athöfnina.

6. ágúst fer síðan fyrsta plöntusending af fjórum til Grænlands frá gróðrarstöðinni Barra á Egilsstöðum. Plönturnar verða gróðursettar við bæinn Qaqortotoq (Julianehåp) í tilefni af 30 ára afmæli heimastjórnar á Grænlandi. Gróðursett verður ein planta fyrir hvern einstakling sem fæðst hefur frá upphafi heimastjórnarinnar 1975 alls um 12.000 plöntur Tegundirnar eru lerki og sitkabastarður.