Íslenska ríkið hefur ráðið fjárfestingabankana Barclays, Citigroup og Dresdner Kleinwort Wasserstein til að hafa umsjón með skuldabréfaútgáfu í evrum, samkvæmt upplýsingum frá umsjónaraðilum.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að fjármálaráðherra og bankastjórn Seðlabanka Íslands hafa undanfarna mánuði átt viðræður um styrkingu á gjaldeyrisforða bankans og mun útgáfan verða nýtt til þess.

"Umsvif innlendra fjármálastofnana hafa aukist mikið undanfarin ár auk þess sem erlendir fjárfestar eru orðnir virkir í viðskiptum á innlendum fjármálamörkuðum. Hvort tveggja gefur tilefni til styrkingar á erlendri stöðu bankans," segir í tilkynningunni.

Áætlað er að skuldabréfaútgáfan verði sú stærsta frá íslenska ríkinu en lokastærð útgáfunnar hefur ekki verið ákveðin.

Umsjónaraðilar munu hefja kynningu á útboðinu fyrir fjárfestum þann 13. nóvember. Ríkisjóður er með AA-mínus lánhæfismat hjá matsfyrirtækinu Standard & Poor's.