Frá 11. desember næstkomandi eykst frelsi í viðskiptum Íslendinga við Kínverja hvað varðar starfsemi smásöluverslana. Í því felst m.a. að Íslendingar eiga auðveldara með að koma á fót verslunum og verslanakeðjum í Kína. Ástæðan fyrir því að Kínverjar aflétta nú hindrunum sem hafa staðið í vegi fyrir því að útlendingar hafa geta komið á fót verslunum þar í landi er aðild þeirra að alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO. Reikna má með að mörg fyrirtæki sæti lagi við að koma á fót verslunarstarfsemi í Kína við þessar breytingar enda hefur kaupmáttur þar í landi aukist umtalsvert á undanförnum árum og íbúafjöldinn er um 1,3 milljarðar manns.

Fram að þessu hafa erlend fyrirtæki þurft að greiða sem svarar um 500 millj. kr. til að fá leyfi til að setja á fót verslun í Kína. Nú lækkar þessi upphæð í um 5 millj. kr. og engar landfræðilegar hindranir verða á staðsetningu verslana innan Kína. Við þá breytingu sem á sér stað í desember nk. þurfa erlendir verslunareigendur aðeins að stofna til sameiginlegs áhættuverkefnis (joint-venture) með kínverskum samstarfsaðila til að geta komið á fót verslanakeðju með fleiri en 30 verslunum.

Smásöluverslunin í Kína jókst um 10% árið 2003. Mestur vöxtur er í stórborgunum þar sem talið er að um 75% smásöluverslana sé hluti af verslanakeðjum. Flestar þeirra eru innlendar en talið er að mörg erlend verslunarfyrirtæku undirbúi nú innkomu í landið. Þó hefur um helmingur af 50 stærstu verslunarfyrirtækjum heimsins þegar komið sér fyrir í landinu.

Sem dæmi um áhuga á þessum nýja markaði er að systursamtök SVÞ í Danmörku, Dansk Handel & Service (DHS), hvetja aðildarfyrirtæki sín nú óspart til að nýta sér þennan möguleika og efna til fundarhalda og hópferðar til Kína til að auðvelda slík viðskipti. Á þetta er bent í fréttabréfi SVÞ.