Norrænir hlutabréfamarkaðir fóru ekki varhluta af skelli á alþjóðlegum mörkuðum í kjölfar tillögu Georgs Papandreús, forsætisráðherra Grikklands, að setja björgunaráætlun ESB-ríkjanna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Aðalvísitalan í kauphöllinni í Finnlandi féll mest á Norðurlöndunum, eða um 5,26%. Á eftir fylgdi kauphöllin í Stokkhólmi i Svíþjóð þar sem aðalvísitalan fór niður um 4,5% og norska kauphöllin í Osló. Þar féll aðalvísitalan um 4,24%. Aðalvísitalan í kauphöllinni í Kaupmannahöfn féll á sama tíma um 2,52%.

Þetta er sambærileg þróun og í stærstu kauphöllum heims í dag en helstu hlutabréfavísitölur beggja vegna Atlantsála hafa fallið um tvö til rúm fimm prósent. Búið er að loka kauphöllum á meginlandi Evrópu. Markaðir í Bandaríkjunum eru enn opnir.

Úrvalsvísitalan hélst hins vegar næsta óbreytt hér, lækkaði um 0,04%. Kauphöllin hér er lítil í samanburði við aðrar og aðeins sex skráð fyrirtæki sem mynda Úrvalsvísitöluna. Veltan í dag nam tæpum 26,5 milljónum króna.

Á erlendum mörkuðum lækkaði gengi banka og fjármálafyrirtækja mest í dag. Hér lækkaði gengi hlutabréfa Marel um 0,4%. Gengi hlutabréfa Icelandair hækkaði á sama tíma um 0,34%