Kaup íslenskra fjárfesta á stærsta iðnfyrirtæki Hollands byggði á langvinnu og yfirgripsmiklu ferli en nú þegar niðurstaða er fengin er ljóst að kaupin eru mjög ábatasöm. Skuldsett yfirtaka á Stork mun losa um talsvert fjármagn og skila nokkrum söluhagnaði.

Yfirtökutilboð London Acqusition B.V., sem er eignarhaldsfélag undir stjórn sjóða sem stýrt er af eða tengjast Candover, Eyri Invest og Landsbanka Íslands til hluthafa í hollenska félaginu Stork N.V. hefur verið samþykkt af 98% hluthafa.  Þau skilyrði sem London Acquisiton B.V. setti fram í yfirtökutilboði sínu hafa verið uppfyllt og er tilboðið hér með lýst óskilyrt af hálfu tilboðsgjafa.  Félagið lagði fram vinveitt yfirtökutilboð upp á 48,40 evrur á hlut í Stork N.V., en það svarar til um 1,7 milljarða evra heildarkaupverðs  (e. enterprise value) eða ríflega 160 milljarðar króna. Virði hlutafjár, eða það sem hluthafar fá greitt, er 1,5 milljarðar evra en viðskiptakostnaður og skuldir námu um það bil 200 milljónum evra. Um var að ræða mjög flókna yfirtöku enda eru þrjár atvinnugreinar undir hatti Stork N.V. Að sögn Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Eyris og stjórnarformanns Marels Food Systems, hafði það í för með sér að starfsmenn Eyris og Landsbanka þurftu að kynna sér þrjár atvinnugreinar. Það gerði einnig að verkum, að það þurfti að vinna miklu fleiri áreiðanleikakannanir en ella, bæði á sviði fjármála, lögfræði og samkeppnisstöðu innan atvinnugreina (e. commercial).  Árni Oddur sagði að niðurstaðan væri þess ánægjulegri eftir langt og strangt ferli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .