Siglingastofnun Íslands hefur hrundið af stað rannsóknarverkefni um umhverfisvæna orkugjafa og er það í samræmi við samgönguáætlun. Ætlunin er að skoða möguleika á að knýja skipavélar fiskiskipaflota landsins með umhverfisvænum orkugjöfum. Íslenski flotinn brennir árlega um 275.000 tonnum af olíu.

Lífræn olía ræktuð

Í því sambandi mun Siglingastofnun í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands rannsaka ræktun á lífrænni olíu. Verða nýttir til þess staðir hérlendis þar sem slík ræktun stangast ekki á við matvælaframleiðslu og hafa þeir nú þegar verið valdir. Í framhaldinu verða skoðaðar aðferðir til að framleiða olíu úr uppskerunni sem nýtist til keyrslu á skipavélum.

Framleiðsla á lífrænni olíu fellur fullkomlega undir kolefnisjöfnun samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun og telur hún ræktun hennar geta minnkað innflutning jarðefnaolíu.