Ölgerð Egils Skallagrímssonar hefur ráðið Jóhann Gunnar Jóhannsson sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs fyrirtækisins. Segist hann spenntur að byrja hjá Ölgerðinni enda sé fyrirtækið eitt af stærstu fyrirtækjum landsins á sínu sviði.

„Bakgrunnur minn er sá að ég var hjá Icelandic Group frá 2009, í fjármálum, fjármálastjóri og svo ásamt því að vera fjármálastjóri var ég aðstoðarforstjóri,“ segir Jóhann Gunnar sem fór í löggilta endurskoðun í kjölfar viðskiptafræðináms.

„Ég kláraði prófið hjá Íslenskri erfðagreiningu, en þar var ég forstöðumaður á fjármálasviði. Þetta er góður grunnur fyrir framtíðina. Ég kem í gegnum MR og stærðfræði hefur alltaf legið vel fyrir mér en ég hafði ekki áhuga á að fara í verkfræði eða læknisfræði, en mat það svo að löggildur endurskoðandi væri eitthvað sem gæti átt við mig.“

Jóhann Gunnar hefur starfað mikið erlendis í gegnum starfsferil sinn. „Ég hef verið mikið frá heimili vegna þessa og flakkað um heiminn tengt vinnu, meðal annars hef ég verið mikið í Bretlandi,“ segir Jóhann Gunnar sem finnur fyrir mun milli landanna.

„Það er kannski þessi frægi menningarmunur. Við erum miklu opnari og hér er minni stéttaskipting. Þá er oft að gott að brjóta ísinn með íslenska húmornum. Það er ákveðin lagni sem maður þarf að beita, því stundum geta menn verið stífir og þá er gott að láta viðkomandi fara aðeins niður með brynjuna.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .