Vefsíða bandarísku Smithsonian stofnunarinnar fjallar um íslenska orðið ísbíltúr sem eitthvað sem geti komið í stað þess að hafa það huggulegt, eða hygge, eins og það er kallað upp á dönsku, í vetrarkuldanum.

Stofnunin, sem rekur 19 söfn, 9 rannsóknarmiðstöðvar og dýragarð fyrir hönd bandaríska ríkisins, gefur einnig út tímarit sem hafði samband við nokkra Íslendinga til að skýra betur hugtakið. Umfjöllunin er sett í samhengi við það að hugtakið hygge, eða að hafa það huggulegt, varð mjög vinsælt í bandarískri umfjöllun í vetrarkuldanum síðasta vetur.

Nú sé hins vegar kominn tími til að standa upp frá sófanum, skilja teppið eftir og leyfa eldiviðnum að vera óhreyfðum í arninum og drífa sig út í ísbíltúr. Skilgreinir tímaritið hugtakið sem það að keyra um og borða ís. Það sé, líkt og hygge, nákvæm aðgerð sem sé tilvalin í vetrarkuldanum.

Rætt er við Sif Gustavsson, framkvæmdastjóra hjá Iceland Cool Media um málið en hún segir ís og ísbíltúra vinsæla hjá Íslendingum allt árið um kring. „Við höfum orð á íslensku, bíltúr, sem lýsir því að fara upp í bíl og keyra um,“ segir Sif. „Þegar bíltúrnum lýkur með því að verðlauna sig með ís, þá köllum við það ísbíltúr.“

Misskilja sjónvarpslausa fimmtudaga

Segir hún að „áfangastaðurinn er minna mikilvægur heldur en ferðin sjálf.“ Á Íslandi séu ísbúðir opnar langt fram eftir kvöldi til að þjónusta þá sem vilji fara í ísbúð eftir kvöldmat. Í greininni er svo smá misskilningur þegar haft er eftir Sif að þegar hún hafi verið að alast upp hafi ekki verið neinir „þættir í sjónvarpinu“ á fimmtudögum, sem hafi því verið tilvaldir fyrir ísbíltúra.

Ísbíltúrar eru sagðir vera fyrir „vini, fjölskyldur, stefnumót,... allir gera þetta á Íslandi,“ sagði Sif og segir þá sérstaklega vinsæla meðal unglinga. Það sé mjög góð nýting á löngum dimmum vetrarkvöldum að keyra um í upphituðum bíl, hlusta á góða tónlist og spjalla á meðan ísinn er étinn.

Loks eru taldir upp nokkrir vinsælir áfangastaðir ísbíltúra, í grein tímarits Smithsonian , og þá fyrstur nefndur bóndabærinn Erpsstaðir í Dölunum sem sagðir eru í um 1 klukkutíma og 45 mínútna akstur frá Reykjavík. Einnig eru Perlan með sitt góða útsýni og Valdís niður á Granda nefnd.

„Auðvitað getur þetta orðið vinsælt í Bandaríkjunum,“ er haft eftir Svandísi Þóru Kristinsdóttur verslunarstjóra hjá Valdís, en hún segir Ís með söltuðum hnetum og karamellu auk söltum lakkrís vera hvað vinsælastan. „Ef þú hefur fólk sem nýtur þess að borða ís og fólk með ökuskírteini, getur það orðið vinsælt alls staðar.“