Íslenskir lífeyrissjóðir geta ekki fjárfest of mikið í innlendum hlutabréfum. Til þess er markaðurinn ekki nógu stór, jafnvel þótt hann myndi tvöfaldast að stærð. Þetta segir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða í viðtali við Viðskiptablaðið.

Margir lífeyrissjóðir hafa á þessu ári aukið heimildir sínar til fjárfestinga í hlutabréfum. Er þróunin í þá átt?

„Vægi hlutabréfa af eignum lífeyrissjóða hefur aukist og tvær ástæður búa helst að baki,“ segir Gunnar en vægi hlutabréfa í söfnum sjóðanna var um 10% um áramót, að sögn hans. „Annars vegar hefur skráðum fyrirtækjum fjölgað og hins vegar hefur orðið mikil verðmætaaukning á félögum í eigu lífeyrissjóða.“

Gunnar telur að þrátt fyrir auknar fjárfestingar lífeyrissjóða í skráðum hlutabréfum geti vægi innlendra hlutabréfa af eignum aldrei orðið mjög mikið. „Við erum reynslunni ríkari eftir efnahagshrunið. Það er erfitt að sjá að íslensk hlutabréf geti vegið þungt í eignum sjóðanna því félögin á markaði eru svo fá. Jafnvel þótt þeim fjölgi um helming þá eru þau áfram of fá.“ Til samanburðar nefnir Gunnar fjárfestingarsjóði sem einblína á heimsvísitölu hlutabréfa, þar sem fjárfest er í um 1.700 fyrirtækjum.

Ítarlegt viðtal við Gunnar er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.