Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur hækkað mest allra helstu markaða í Evrópu á árinu eða um 13,6 prósent. Greiningardeildir bankanna spá áframhaldandi hækkunum á næsta ári og spáir Greining Glitnis til að mynda allt að 20% hækkun Úrvalsvísitölunnar.

Margt bendir til þess að sú spá geti ræst enda hefur stemningin á markaðnum verið að aukast jafnt og þétt eftir annars neikvæðar fréttir erlendra greiningaraðila um íslenskt efnahagslíf og niðursveiflu í kjölfarið í byrjun árs. Þá minnkaði aðgengi einstaklinga og fyrirtækja að fjármagni til muna enda stigu bankarnir all harkalega á bremsuna til að sporna við því hruni sem íslensku efnahagslífi var spáð af þeim allra svartsýnustu í geiranum.

Hlutabréfaviðskipti hafa þó verið að síga upp á við að undanförnu eftir jákvæðari skýrslur, einkum og sér í lagi frá matsfyrirtækinu Moody's og bendir allt til þess að hækkunin muni halda áfram enda stemningin og jákvæðni í garð markaðarins verið mikil síðustu vikur. Og það ekki að ástæðulausu. Bankarnir hafa verið duglegir að kynna bæði sig sjálfa sem og íslenskt efnahagslíf á erlendri grundu frá því umræðan um horfur í efnahagslífinu fór á skrið. Ákveðin vakning varð í öllum hamagangnum og sáu menn að þó vel gengi, væri mikilvægt að taka á ákveðnum málum. Menn eru almennt sammála um að bönkunum hafi tekist að sannfæra viðskiptaheiminn, á þeim fjölmörgu kynningum sem stærstu bankar heims hafa staðið fyrir, um að hér sé öflugt og sterkt efnahagskerfi sem sé síður en svo að hruni komið. Neikvæð umræða hefur því ekki komið sér að öllu leyti illa, því fjárfestar, bæði litlir og stórir, hafa orðnir forvitnir um litla landið Ísland og þá umræðu og athygli sem þetta smáríki hefur fengið. Sérfræðingar hér á landi segja að erlendir greiningaraðilar hafi okkur nú undir smásjánni, aðilar sem hingað til hafi lítið fylgst með því sem hér hefur verið að gerast.

Það sem af er ári hafa allir þeir markaðir sem greiningardeild Landsbankans lítur til, hækkað fyrir utan þann japanska. Þá hafa þeir finnski, norski og þýski allir hækkað um meira en 11% á árinu. Greiningardeildir bankanna gera allar ráð fyrir góðum vexti hagnaðar lang flestra fyrirtækja í Kauphöllinni á milli áranna 2006 og 2007. Grunnrekstur fyrirtækja sé, sem fyrr, góður sem muni skila sér í flestum tilfellum í vexti, góðum tekjum, framlegð og hagnaði. Og þá er bara að bíða og sjá hvort spárnar verði að veruleika.

Ítarleg fréttaskýring um hlutabréfamarkaðinn birtist í Viðskiptablaðinu í dag.