Markmiðið með yfirtökutilboði á Alfesca er að efla félagið og styrkja. Engar áætlanir liggja fyrir um að breyta stefnu félagsins með afdrífaríkum hætti eins og sakir standa.

Þetta segir Róbert Aron Róbertsson, stjórnarformaður Alta Food Holding sem er í eigu Ólafs Ólafssonar í samtali við Viðskiptablaðið en eins og greint var frá í morgun hefur franska félagið Lur Berri Iceland tekið yfir því sem samsvarar um 23% hlut í félaginu.

Alta Food Holding er móðurfélag Kjalar Invest sem á um 40% hlut í Alfesca. Þannig halda átta samstarfsaðilar, þ.á.m. Kjalar Invest sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, á um 93% hlut í félaginu.

Róbert Aron segir að eins og áður hafi komið fram í yfirtökutilboðinu verður nú hafið afskráningarferli félagsins úr Kauphöllinni hér á Íslandi.

„Starfsemin á Íslandi er í dag mjög lítil, hér starfa eingöngu tveir starfsmenn fyrir félagið,“ segir Róbert Aron aðspurður um framtíðarstarfssemi hér á landi.

Um afskráninguna úr Kauphöllinni segir Róbert að íslenski markaðurinn sé ekki lengur það sem hann var og hann henti félaginu ekki.

Stærsti hluti starfseminnar fer í dag fram í Frakklandi eða um 60%. Þá fer um 30% hluti starfseminnar fram í Bretlandi og 10% annars staðar.

Aðspurður um skráningu félagsins á öðrum mörkuðum segir Róbert Aron að engar áætlanir liggi fyrir um slíkt. Horft verið til næstu 2-3 ára og fylgst með mörkuðum en hann telur skráningu annars staðar ólíklega.

Lur Berri er franskt samvinnufélag sem er í eigu á fjórða þúsund bænda og hefur starfað með Alfesca í nokkur ár.