Mjög athyglisvert er að skoða og bera saman verðþróun helstu hlutabréfavísitalna í heiminum eins og bent er á í MP Molum sem MP Fjárfestingabanki sendir frá sér. Þar eru bornar saman 10 hlutabréfavísitölur frá því í upphafi ársins 2002 og fram í byrjun febrúar 2005. Íslenska Úrvalsvísitalan (ICEX 15) er þar á meðal. Íslenska Úrvalsvísitalan sker sig áberandi úr hvað varðar ávöxtun á tímabilinu. Fjárfestir sem í upphafi ársins 2002 fjárfesti í íslensku vísitölunni hefur á tímabilinu hlotið rúmlega 220% nafnávöxtun á meðan fjárfestingar á öllum helstu mörkuðum heimsins bera ýmist neikvæða nafnávöxtun eða mest 9% í KFX vísitölunni í Danmörku.

Aðrar vísitölur sem eru skoðaðar eru eftirfarandi: OMX í Svíþjóð, KFX í Danmörku, CAC í Frakklandi, DAX í Þýskalandi, FTSE 100 í Bretlandi, NIKKEI í Japan og DOW JONES, NASDAQ og S&P 500 í Bandaríkjunum. Greinileg fylgni er á meðal allra vísitalnanna að undanskilinni einni vísitölu sem er Íslenska Úrvalsvísitalan.

"Íslenska Úrvalsvísitalan sker sig áberandi úr hvað varðar ávöxtun á tímabilinu. Fjárfestir sem í upphafi ársins 2002 fjárfesti í íslensku vísitölunni hefur á tímabilinu hlotið rúmlega 220% nafnávöxtun á meðan fjárfestingar á öllum helstu mörkuðum heimsins bera ýmist neikvæða nafnávöxtun eða 9% mest í KFX vísitölunni í Danmörku.

"Þessi stutti samanburður skýrir vel þann uppgang og hinn aukna áhuga sem fjárfestar hafa haft á hlutabréfakaupum hér á landi. Segja má að hann renni líka ákveðnum stoðum undir þær gagnrýnisraddir sem segja að lítil innistæða kunni að vera fyrir öllum þessum verðhækkunum. Á það verður þó ekki lagt mat að þessu sinni," segir í MP Molum.

Byggt á MP Molum MP Fjárfestingabanka.