*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 23. janúar 2020 15:02

Íslenski sjávarklasinn færir út kvíarnar

Íslenski sjávarklasinn mun í mars opna sjávarklasa í Portlandborg í Maine.

Ritstjórn
Þór Sigfússon er stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans.
María Kjartansdóttir

Fyrsti klasinn sem Íslenski sjávarklasinn stofnaði utan Íslands, The New England Ocean Cluster, opnar húsakynni fyrir frumkvöðla í sjávartengdum greinum í Portlandborg í Maine, hinn 18. mars nk Hús sjávarklasans í Portland hefur fengið nafnið HUS. Húsið stendur við höfn borgarinnar og við eina af aðalgötum hennar. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að með opnun þessarar nýju aðstöðu, þar sem stefnt er að því að rösklega 20-30 fyrirtæki og frumkvöðlar hafi aðstöðu, sé stefnt að því að efla frumkvöðlastarf bandaríska klasans og samstarf íslenskra og bandarískra frumkvöðla sem tengjast bláa hagkerfinu.

Þá segir jafnframt að Íslenski sjávarklasinn sjái mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem vilji hefja útflutning eða starfsemi á Nýja Englandssvæðinu, að nýta sér þessa aðstöðu. Í nágrenni við HUS séu vörugeymslur Eimskips og þá séu einnig á svæðinu bandarískir og íslenskir aðilar sem hafi reynslu af vörudreifingu innan Bandaríkjanna. Þarna geti því íslensk fyrirtæki haft aðstöðu þegar þau hyggist stunda viðskipti eða útflutning á austurströnd Bandaríkjanna í umhverfi sem þekki til íslensku fyrirtækjanna og þar sem þarlendir klasastarfsmenn geti aðstoðað.

Stikkorð: Íslenski sjávarklasinn