Þegar 66°Norður hóf starfssemi sína á Súgandafirði árið 1926, þá undir nafninu Sjóklæðagerðin, byggðist starfsemin á framleiðslu fatnaðar fyrir íslenska sjómenn.

Allt frá þeim tíma hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á að þróa og bjóða vörur sem standast kröfur íslenskra sjómanna, bæði hvað varðar þægindi og öryggi.

Á síðasta ári fékk hinn eini sanni sjógalli 66°Norður heldur betur gæðauppfærslu þegar hönnunarteymi fyrirtækisins endurhugsaði gallann nánast frá grunni.

„Það eru ýmsar uppfærslur á nýja gallanum svo sem sterkara efni, liprara og kuldaþolnara í alla staði að ógleymdu því að nú er sniðið öllu betra og þægilegra fyrir notendur. Við fundum nýjan efnisframleiðanda sem stóðst okkar kröfur um gæði og útkoman er mjög góð. Gallinn hefur verið betrumbættur í gegnum tíðina en aldrei fengið svo mikla yfirhalningu sem nú. Það ríkir því mikil spenna í herbúðum 66°Norður,” segir Valdimar K. Sigurðsson, viðskiptastjóri hjá 66°Norður.

„Það skiptir okkur miklu máli að hlusta á sjómennina sjálfa svo við fengum nokkra til liðs við okkur þegar þessar breytingar stóðu yfir og þeirra innlegg var ómetanlegt við þróun og útfærslu nýja sjógallans,” segir Valdimar. Nýi sjógallinn verður kynntur formlega nk. föstudag 10. mars.