Svissneska verktakafyrirtækið Marti Contractors mun yfirtaka að fullu rekstur verktakahluta Íslenskra aðalverktaka (ÍAV). Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður tilkynnt um þetta í dag. Marti var einn af stærstu kröfuhöfum ÍAV. Arion banki mun taka yfir öll þau fasteignaþróunarverkefni sem ÍAV hefur unnið að á eigin reikning.

Þetta er niðurstaða fjárhagslegrar endurskipulagningar á ÍAV og tengdum félögum sem staðið hefur yfir frá því í desember þegar Arion og Byr tóku yfir móðurfélag ÍAV, Drög ehf.. Félagið var áður í eigu helstu stjórnenda ÍAV. Arion heldur nú á um 82 prósenta hlut í móðurfélaginu en Byr á um átján prósenta hlut.

ÍAV var stofnað árið 1954 og er með elstu starfandi verktakafyrirtækjum á Íslandi. Íslenska ríkið seldi tæplega 40 prósenta hlut sinn í fyrirtækinu til núverandi stjórnenda þess fyrir sjö árum síðan. Þeir gerðu í kjölfarið öðrum eigendum yfirtökutilboð og eignuðust fyrirtækið að fullu. Fyrirtækið hefur ekki getað staðið við skuldbindingar sínar frá bankahruni og var því í reynd gjaldþrota.

________________________

Ítarlega er fjallað um yfirtökuna á Íslenskum aðalverktökum í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.