íAV, verktakahluti Íslenskra aðalverktaka, segir upp um 170 starfsmönnum um næstu mánaðarmót. Nær uppsögnin til tæplega helmings af öllum starfsmönnum félagsins.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Ef af hópuppsögninni verður er hún sú stærsta frá hruni en meðal verkefna sem ÍAV hefur í dag er vinna við tónlistarhúsið Hörpu.

Í frétt Stöðvar 2 kom fram að helst séu það iðnaðarmenn og þeir sem vinna við framkvæmdir sem missa vinnuna. Einnig muni einhverjir stjórnendur og skrifstofufólk félagsins fá uppsagnarbréf.