Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna á Íslandi tilkynnti greindi frá því í dag að íslenskir aðilar hafa gefið rúmlega 20,5 milljón króna styrk til bólusetningarverkefnis UNICEC gegn mænusótt í Nígeríu.

Styrkinn veita Hreinn Loftsson, hæstarréttarlögmaður og stjórnarformaður Baugs, Lýsi hf., Frímúrarareglan á Íslandi, Eimskip, Samherji, Klofningur, Íslenska umboðssalan, Salka-Fiskmiðlun, Norlandia, Ice-Group og Félagsbúið Miðhrauni.

Auk þess veitir íslenska ríkið 100 þúsund Bandaríkjadali til átaksins í gegnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Framlagið frá Íslandi nemur því alls tæpum 28 milljónum króna, segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að bólusetning er ein ódýrasta og öflugasta leiðin til að bjarga mannslífi. UNICEF áætlar að bólusetning gegn mænusótt kosti aðeins um 90 krónur (1,25 USD) og því mun framlagið frá Íslandi geta fjármagnað sem nemur 300 þúsund bólusetningum, eða sem samsvarar fjölda Íslendinga!