Tekjur íslenskra arkitekta voru þær hæstu í alþjóðlegum samanburði árið 2016. Fjöldi arkitekta á hverja þúsund íbúa er helmingi meiri hér en í Evrópu, en greinin hefur þó ekki enn náð þeirri stærðargráðu sem hún náði fyrir hrun.

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Vilhjálms Hilmarssonar, sérfræðings í greiningum hjá Samtökum iðnaðarins, um stöðu arkitektastéttarinnar. Vilhjálmur flutti erindi á fundi SAMARK sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins í vikunni, þar sem rætt var um menntamál og stöðu arkitektarinnar á Íslandi.

Vilhjálmur greindi frá því að árið 2003 var fjöldi fyrirtækja í arkitektúr á Íslandi 278 og fjöldi launþega 332. Mikill vöxtur einkenndi greinina fram til áranna 2007/2008, þegar fjöldi fyrirtækjanna náði 357 og launþegar í stétt arkitekta voru 633. Árið 2016 voru arkitektastofur í landinu 336 og launþegar 491. Ljóst er að greinin hefur ekki enn náð fyrri umsvifum.

Í erindi Vilhjálms kom einnig fram að arkitektar hafi búið við meiri sveiflur í tekjum heldur en viðskiptahagkerfið, sé miðað við tekjuvísitölu. Þó hafi hlutfallslegur munur minnkað eftir hrun. Rekstrartekjur á hverja arkitektastofu námu 23 milljónum króna árið 2016, en á föstu verðlagi voru þær mestar árið 2007, eða 39 mlljónir. Greinin er sögð standa styrkum fótum (að meðaltali), með hærra eiginfjárhlutfall heldur en viðskiptahagkerfið.

Í evrópskum samanburði er fjöldi arkitekta á Íslandi nokkuð yfir Evrópumeðaltalinu. Tekjur þeirra eru þó lang hæstar í alþjóðlegum samanburði, eða tæplega 120.000 evrur árið 2016. Á eftir Íslandi koma Holland (rúmlega 80.000 evrur), Lúxembúrg (um 70.000 evrur) og Svíþjóð (um 70.000 evrur).

Þá sagði Vilhjálmur að samkvæmt rannsókn Oxford væru 2% líkur væru á því að vélar myndu leysa arkitekta af hólmi í framtíðinni. Til samanburðar væru 94% líkur á því að endurskoðendur verði leystir af hólmi og 45% líkur á því að vélar leysi hugbúnaðarverkfræðinga af hólmi.