Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði á morgunverðarfundi Félags um fjárfestatengsl, að hann teldi íslensku bankana ekki hafa lækkað meira í verði að undanförnu en erlendir bankar.

Jónas sagði meginskýringuna fyrir miklu lækkunum á gengi hlutabréfa vera lausafjárerfiðleikar á alþjóðlegum mörkuðum sem riðið hafa yfir markaðina. Hann segir íslenska banka ekki skera sig úr hvað lækkanir varðar, ef litið er til þróunarinnar frá miðju síðasta ári.

Gengi íslensku bankanna lækka minna 2007

"Ef við lítum á fyrstu dagana í janúar, sem er í raun of stutt tímabil til að draga miklar ályktanir af, sést að íslensku bankarnir hafa lækkað aðeins meira en sambærilegar stofnanir  í nágrannalöndunum, en ef við lítum á allt árið 2007 kemur í ljós að þeir hafa lækkað minna," sagði hann.

"Ég held að þetta sé tímabil sem gefur nokkuð góða mynd af þróuninni. Ísland er ekki eyland að þessu leyti," bætti hann jafnframt við.

Huga að samþættingaráhættu

Hann benti á að ein rekstraráhætta bankanna væri samþættingaráhætta.  “Í hinum mikla vexti bankanna,  í innri og ytri vexti sem verið hefur í undan farin ár, er hætta á því, að ekki takist tímanlega og með fullnægjandi hætti að aðlaga vöxtinn að starfseminni. Almennt séð virðist bönkunum hafa tekist vel upp með aðlögun á starfsseminni, en ég held hinsvegar þeir þurfa að huga enn þá betur að þessum þætti. Einkum ýmsir ferlar, stoðdeildir og upplýsingakerfi, fylgi vextinum og ná yfir alla starfssemina,” sagði Jónas.

Jónas sagði enn fremur að íslenska fjármálakerfið væri orðið mjög alþjóðlegt og líklega alþjóðlegra en fólk gerði sér almennt grein fyrir.

Skuldatryggingaálagið hátt

Jónas beindi einnig máli sínu að háu skuldatryggingaálagi bankanna, sem hækkað hefur töluvert á undanförnum vikum.  Sérfræðingar greiningarfyrirtækisins Credit Sights sögðu í síðustu viku að skuldatryggingaálag gæfi ekki rétta mynd af áhættunni af rekstri íslensku bankanna.

“Ég tek undir það,” sagði Jónas og telur að íslenskt fjármálalíf hafi alla burði til þess að þola þann óra sem er á alþjóðlegum mörkuðum