Í Hálf fimm fréttum Kaupþings segir að þegar heildarhagnaður tíu verðmætustu banka á Norðurlanda sé tekinn saman á þriðja ársfjórðungi komi í ljós að hann nemi 267,5 milljörðum króna.

Það samsvarar 5,6% samdrætti milli ára og skýrist einkum af lækkun söluhagnaðar, annars vegar hjá Nordea, stærsta fjármálafyrirtækis Norðurlanda, sem seldi International Moskow Bank í fyrra, og hins vegar hjá Kaupþingi [ KAUP ] sem naut góðs af miklum einskiptishagnaði vegna skráningar Exista [ EXISTA ] á markað haustið 2006, samkvæmt því sem segir í fréttinni.

Þrátt fyrir verulegar sviptingar á fjármálamörkuðum á þriðja ársfjórðungi gekk rekstur norrænu bankanna almennt ágætlega, en þó fyrst og fremst þegar litið er til grunnrekstrar svo sem hreinna vaxtatekna og þóknanatekna. Fjárfestingatekjur drógust aftur á móti saman vegna verðfalls á hluta- og skuldabréfamörkuðum. Hreinar rekstrartekjur tíu stærstu bankanna námu um 719,8 milljörðum króna og jukust um 5,9% á milli ára. Rekstrarkostnaður jókst öllu meira en rekstrartekjur eða um 12,6% og nam alls 372,8 milljörðum króna.

Hæst arðsemi íslensku bankanna

Í frétt Kaupþings segir að af einstökum bönkum hafi hagnaður Landsbankans [ LAIS ] aukist mest á milli ára eða um 61%. DnB Nor skilaði nærri 36% meiri hagnaði en á sama tíma í fyrra og afkoma Handelsbanken (SHB) jókst um fimmtung.

Landsbankinn var einnig sá banki sem skilaði hæstri arðsemi eiginfjár á fyrstu níu mánuðum ársins og nam hún 33% á ársgrundvelli. Íslensku bankarnir voru reyndar í sérflokki í þessum efnum því þeir voru allir með yfir 20% arðsemi eiginfjár; Kaupþing með 27,5% og Glitnir [ GLB ] með 24,1%, Samkvæmt því sem segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.