Breskir fjölmiðlar segja frá því að særstu bankar Íslands hafi samþykkt að selja hluta erlendra eigna sinna.

Fréttasíða breska ríkisútvarpsins, BBC, segir frá tilkynningu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, þess efnis og vísar þar til ummæla hans fyrir utan Ráðherrabústaðinn seint í gærkvöldi.

Í frétt BBC segir einnig að stjórnvöld reyni nú að  sannfæra lífeyrissjóði um að gera slíkt hið sama.

BBC hefur eftir Geir að Íslensku bankarnir hafi vaxið um of erlendis og því sé nauðsynlegt að þeir dragi saman seglin nú. Þessar aðgerðir séu til þess fallnar að auka gjaldeyrisforða Íslands og styrkja gengi íslensku krónunnar.

Áhugi erlendra fjölmiðla, einkum breskra, á Íslandi hefur vaxið mjög undanfarið og fjalla þeir um „kvefið” eins og það er kallað, sem nú hrjáir íslenskt efnahagslíf.