Breska húsnæðislánafyrirtækið Portman Building Society hefur falið rágjafarfyririrtækinu Gleacher Shacklock að selja innlánaeiningu sína á Ermasundseyjunni Guernsey og hafa viðræður átt sér stað við íslenskan banka um að kaupa eininguna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Landsbanki Íslands hafi skoðað alvarlega eininguna, sem nefnist Portman Channel Islands (PCI), en að annar íslenskur banki hafi síðan stungið sér inn í söluferlið sem stuðlaði að því að Landsbankinn hefur nú dregið sig út úr viðræðunum.

Eftir standa Kaupþing og Glitnir og er sá síðarnefndi talinn líklegri kaupandi að PCI, sem hefur haft það hlutverk að fjármagna Portman-húsnæðislánabankann með innlánum erlendis frá. Hugsanlegt kaupverð var ekki fáanlegt þegar Viðskiptablaðið fór í prentun, en heildarinnlán PCI hafa fjórfaldast á síðstu fimm árum og nema nú 630 milljónum punda, sem samsvarar tæplega 83 milljörðum króna.

Erlendir greiningaraðilar og bankar gagnrýndu íslensku bankana harðlega á síðast ári og sögðu þá of háða erlendum fjármálamörkuðum og að innlán væru ekki nægjanleg. Landsbanki Íslands hefur síðan aukið innlán sín verulega með Icesave-netsparleiðinni í Bretlandi. Kaupþing og Glitnir hafa einnig aukið innlán sín en hlutfallslega ekki jafn mikið og Landsbankinn, sem keypti innlánabanka á Gurensey í fyrra.

Portman segist hafa fengið nokkur áhugaverð tilboð frá hugsanlegum kaupendum en tjáir sig ekki um einstaka kauptilboð. Búist er við að Portman sameinist Nationwide-húsnæðislánabankanum á þessu ári, en stjórnir bankanna tveggja samþykktu að renna saman félögunum í September síðastliðum.

Robert Sharpe, forstjóri Portman-húsnæðislánabankans, segir PCI góðan kost fyrir væntanlega kaupendur. "Afkoma PCI hefur verið sérstalkega góð og innlán og tekjur halda áfram að aukast," segir Sharpe. "Þetta er gott tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á því að ná fótfestu á hratt vaxandi markaði innlána erlendis frá (e. offshore deposit-taking market). Kaup á PCI gera kaupendum kleift að komast yfir innlán á skömmum tíma og auka fjölbreytni fjármögnunar."