Íslenskir karlar taka virkan þátt í umönnun nýfæddra barna. Íslendingar slá önnur met, s.s. verðhækkanir, sem voru þær mestu á Norðurlöndum, bæði hvað varðar hækkanir á almennum verðum, verhækkanir á matvælum og húsnæði.

Þetta og margt annað kemur fram í Norrænum hagtölum 2008, sem kemur út í dag miðvikudaginn 8. október.

Í tilkynningu frá Norðurlandaráði kemur fram að nýbakaðir íslenskir feður notfæra sér í miklum mæli þann kost að taka feðraorlof. Árið 2007 tóku þeir þannig 33 prósent af öllu barneignaorlofi á Íslandi, sem er met og langhæsta hlutfall á Norðurlöndum.

{Mögulega er þátttaka karla á þessu sviði ein af ástæðum þess að á Íslandi fæðast flest börn á Norðurlöndum,“ segir í tilkynningu Norðurlandaráðs.

Þar kemur fram að íslenskar konur eignast að meðaltali 2,1 barn, en finnskar og sænskar konur eignast fæst börn á Norðurlöndum, eða að meðaltali 1,8.

Um þessar mundir er vinsælast að skíra ungabörn á Íslandi Jón eða Söru. Í Finnlandi eru vinsælustu nöfnin Veeti og Ella, en í Danmörku eru það Mikkel og Mathilde.