Breska heilsumatvörukeðjan Julian Graves, sem er að stærstum hluta í eigu íslenskra fjárfesta, mun gera formlegt kauptilboð í bresku te- og kaffikeðjuna Whittard of Chelsea í dag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Stjórn Whittard hefur þegar mælt með að kauptilboðinu verði tekið.

Tilboðið hljóðar upp á 21,5 milljónir punda (2,4 milljarða íslenskra króna) og mun Landsbanki Íslands fjármagna kaupin að hluta til, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins. Kauptilboðið er gert í nafni Java Acquisitions, sem er dótturfélag eignarhaldsfélagsins Barney Holdings, sem á Julian Graves. Baugur og Pálmi Haraldsson eru stærstu hluthafarnir í Julian Graves.

Baugur hefur margoft verið orðaður við Whittard og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur félagið fylgst náið með Witthard um töluverðan tíma. Sérfræðingar í London segja að rekstur Whittard falli vel að rekstri Julian Graves.

Rekstur Witthard-keðjunnar hefur gengið brösulega síðustu misseri og gaf félagið út afkomuviðvörun fyrr á þessu ári og varaði við að heilsársuppgjör félagsins myndi líklega vera undir væntingum. Stjórnarformaður Witthard, Richard Rose, sagði þegar afkomuviðvörunin var gefin út að smásala í Bretlandi væri erfið og að sölutekjur fyrstu 20 vikur ársins væru 3,9% lægri miðað við sama tímabili í fyrra.

Gengi bréfa Whittard hefur lækkað verulega vegna slakrar afkomu og segja sérfræðingar að íslensku fjárfestarnir hafi gert góð kaup þar sem hægt sé að ná félaginu í lágmarki.