Finnski fjarskiptarisinn Nokia hefur keypt bandaríska fyrirtækið Enpocket sem er að stórum hluta til í eigu íslenskra fjárfesta. Upplýsingar um kaupverð liggja ekki fyrir en hugsanlega gæti það verið á milli 100 og 200 milljónir Bandaríkjadala eða á milli sjö og fjórtán milljarðar króna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru á milli 30 og 40% af hlutafé félagsins í eigu íslenskra fjárfesta.

Í frétt í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að íslensku fjárfestarnir munu vera um 20 talsins og á Brú Venture Capital hf. stærsta hlutinn, en þeir voru með stjórnarmann í félaginu. Enpocket var stofnað í Boston árið 2001.

Enpocket sameinaðist íslenska fyrirtækinu Landmati árið 2005 og eignuðust íslenskir fjárfestar þá stóran hlut í félaginu. Nokia Ventures Partners hafði átt í báðum félögunum fram að því. Landmat var stofnað á sínum tíma af Hauki Harðarsyni og Sveini Baldurssyni. Eftir samrunann var Haukur stjórnarformaður Enpocket um skeið en hætti fyrir einu ári síðan. Aðspurður sagðist hann ekki hafa fengið upplýsingar um smáatriði samningsins nú.

Skömmu eftir samrunann tók Eyþór Arnalds við framkvæmdastjórastöðu hjá félaginu í London þar sem hann stýrði sölumálum í Evrópu. Að sögn Eyþórs hafði þeim Hauki og Sveini tekist mjög vel að sigla fyrirtækinu út úr þeim erfiðu tímum sem hér ríktu árið 2001. "Þeim tókst að koma á þessum samruna sem skilar nú þessari sölu og er óhætt að segja að þeir hafi staðið vaktina vel þar sem mörg þessara hátæknifyrirtækja gáfust upp þegar erfiðast var."

Hjá Enpocket starfa á annað hundrað manns og helstu starfsstöðvar eru í London, Boston og Singapúr. Starfsstöð félagsins á Íslandi var lokað fyrir nokkrum misserum. Enpocket aðstoðar farsímafyrirtæki við markaðssetningu á þjónustu í farsímum. Einnig starfaði fyrirtækið með efnisveitum sem voru að reyna að koma efni inn í síma. Því eru mörg af stærstu farsímafyrirtækjum heims meðal viðskiptavina félagsins. Þannig má segja að félagið starfi við gagnvirka markaðssetningu.