Íslenskir fjárfestar eiga í yfirtökuviðræðum við stjórnendur bresku te og kaffi smásöluverslunarkeðjuna Whittard of Chelsea, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Eigendur heilsuverslunarkeðjunnar Julian Graves, þar á meðal Baugur og Pálmi Haraldsson, hafa áhuga á að sameina félagið og Whittard, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins. Virði félagsins er í kringum tveir milljarðar króna.

Gengi bréfa Whittard hækkaði um 20% í gærmorgun vegna frétta um að félagið ætti í yfirtökuviðræðum við þriðja aðila. Gengi bréfa félagsins, sem er skráð í kauphöllina í London, klifraði í tæp 90 pens á hlut en lækkaði síðan aftur og um miðjan dag nam hækkunin tæpum 17%.

Baugur hefur margoft verið orðaður við félagið og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur félagið fylgst náið með Whittard um töluverðan tíma.
Sérfræðingar í London segja að rekstur Whittard falli vel að Julian Graves.

Rekstur Whittard-keðjunnar hefur gengið brösulega síðustu misseri og gaf félagið út afkomuviðvörun fyrr á þessu ári og varaði við að heilsársuppgjör félagsins myndi líklega vera undir væntingum. Stjórnarformaður Whittard, Richard Rose, sagði þegar afkomuviðvörunin var gefin út að smásala í Bretlandi væri erfið og að sölutekjur fyrstu 20 vikur ársins væru 3,9% lægri miðað við sama tímabili í fyrra.

Gengi bréfa Whittard hefur lækkað verulega vegna slakrar afkomu og segja sérfræðingar að Baugur geti gert góð kaup þar sem hægt sé að ná félaginu í lágmarki.

Baugur var einnig orðaður við French Connection fyrr í vikunni en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Baugur ekki aukið hlut sinn í félaginu og á ekki í yfirtökuviðræðum við félagið. Breska dagblaðið The Guardian segir þó að orðrómur um að Baugur sé að auka við hlut sinn í keðjunni hafi ýtt undir viðskiptin þar sem markaðurinn vænti þess að félagið hafi áhuga á að taka yfir French Connection.

Ekki er þó líklegt að Baugi takist að taka yfir French Connection án samstarfs við stofnanda fyrirtækisins, Stephen Marks, sem á 42% hlut í félaginu. French Connection hefur átt undir högg að sækja og hafa vinsældir vörumerkisins dvínað verulega. Smásölusérfræðingar segja að FCUK-merki keðjunnar sé orðið verulega þreytt og að þörf sé á breytingum.