Íslenskir fjárfestar undir forystu MP Fjárfestingarbanka hf. hafa samið um kaup á 90% hlutafjár í viðskiptabanka í Úkraínu. Í tilkynningu frá MP fjárfestingabanka kemur fram að kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppnisstofnunar í Úkraínu, Úkraínska Seðlabankans, sem fer með bankaeftirlit í landinu og Fjármálaeftirlitsins á Íslandi. Þessir aðilar hafa verið upplýstir um að kaupin væru á döfinni.

Bankinn sem um ræðir heitir Bank Lviv og er í samnefndri borg með tæplega einni milljón íbúa. Lviv hét Lvov á Sovéttímabilinu en þar áður Lemberg. Borgin er í Galisíu í Vestur-Úkraínu, aðeins 70 kílómetrum frá pólsku landamærunum. Héraðið var hluti af keisaradæminu Austurríki-Ungverjaland fram yfir fyrri heimsstyrjöldina og er þar margt sögufrægra og glæsilegra bygginga.

Miðborg Lviv er á friðunarlista UNESCO, þar með talið húsnæði aðalbanka Bank Lviv, sem er í hjarta borgarinnar. Auk aðalbankans rekur bankinn fjögur útibú. Starfsmenn eru um eitthundrað talsins.

Að mati Margeirs Péturssonar, stjórnarformanns MP Fjárfestingarbanka sem leiddi málið, er um góð kaup að ræða, sérstaklega í samanburði við kaup annarra vestrænna banka á bönkum í Úkraínu. Þar sem búist er við gríðarlegum vexti í bankakerfi landsins á næstu árum eru fjölmargir vestrænir bankar að koma sér fyrir í landinu með kaupum á bönkum og með stofnun útibúa.

Samið var um kaup á tveimur af stærstu bönkum landsins á síðasta ári. Raffeisen International í Austurríki keypti Bank Aval á milljarð bandaríkjadala og franski bankinn BNP Paribas keypti meirihluta í Ukrsibbank. Í árslok 2004 festi sænski SE bankinn kaup á banka í Úkraínu í gegnum Litháenskan dótturbanka sinn. Bank Lviv er mun minni að stærð en Margeir telur góðan kost að kaupa lítinn banka og setja þeim mun meiri kraft í uppbyggingu hans. ING Bank Ukraine var formlegur miðlari viðskiptanna.

MP Fjárfestingarbanki, ásamt fleiri hluthöfum reka Vostok Holdings ehf., fjárfestingarfélag fyrir A-Evrópu. Það er með skrifstofur í Vilnius og Kiev. Margeir telur bankakaupin skapa góða undirstöðu fyrir frekari fjárfestingar Vostok og annarra íslenskra fjárfesta í Úkraínu, sem er stærsta land Evrópu með um 50 milljónir íbúa. Landið var lengi vel sniðgengið af vestrænum fjárfestum, en hallar sér nú í vesturátt eftir sigur Júsjenskó í forsetakosningunum 2004. Margeir segir nú mikla vinnu fara í hönd við að þróa bankann. Leitað verður til Sparisjóðs Vélstjóra og fleiri íslenskra sparisjóða um að koma kerfum og vinnuferlum bankans í nútímalegra horf.