RedSquare Invest, fjárfestingasjóður í eigu íslenskra fjárfesta, hefur samþykkt að kaupa breska veðbankafélagið Falconforce Trading Limited í samvinnu við nýja stjórnendur, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en áætluð velta félagsins var í kringum 30 milljónir punda, eða rúmlega þrír milljarðar króna, á síðasta ári.

RedSquare Invest er í eigu Húsasmiðjufjölskyldunnar og er stjórnað af Sveini Biering Jónssyni og Hlíf Sturludóttur.

Sveinn Biering sagði í samtali við Viðskiptablaðið að stefnan sé að taka þátt í samþjöppun á veðbankamarkaði í Bretlandi og að fjárfestarnir stefni á að skrá félagið, sem er rekið undir merkjum Wilson Sport and Racing, á AIM-markaðinn í London fyrir árslok.

Hann segir hlutafé við skráningu verða nýtt til þess að fjármagna frekari yfirtökur í geiranum á minni og millistórum fyrirtækjum og steypa saman í keðju sem getur keppt við veðbankarisana Ladbroke, William Hill og Coral Eurobet.

Sveinn segir yfirtökuna ekki vera skuldsetta yfirtöku og að eigið fé hafi verið töluvert. Bank of Ireland fjármagnaði hluta yfirtökunnar, aðallega rekstrarfé, og Íslandsbanki sá um ráðgjöf vegna kaupanna.

RedSquare Invest hefur fengið til liðs við sig nýja stjórnendur sem hafa mikla reynslu af rekstri veðbanka, þar á meðal fyrrverandi þróunarstjóra Ladbroke og núverandi forstjóra knattspyrnuklúbbsins Arsenal, Ken Edelman.

Eignarhaldsfélagið sem mun halda utan um rekstur Wilson-búðanna hefur fengið nafnið Metro Racing Limited og mun það félag verða skráð. Nýir stjórnendur fjárfesta einnig í félaginu.