Fjármálastjórar íslenskra félaga eru bjartsýnastir evrópskra starfssystkina sinna á þróun EBITDA á næstu tólf mánuðum. Þá eru meiri líkur á því nú, samanborið við síðasta haust, að félög bæti við sig starfskröftum innan árs. Rúmlega fjórir af hverjum tíu hér á landi segja að tekjur séu nú þegar jafnar eða hærri samanborið við upphaf heimsfaraldursins. Þetta er meðal niðurstaðna Fjármálastjórakönnunar Deloitte.

„Það er gífurleg aukning á bjartsýni en slíkt er auðvitað ánægjulegt að sjá. Síðustu tvær kannanir hafa vissulega verið litaðar af áhrifum faraldursins og þá mældist svartsýni mikil. Viðsnúningurinn nú er aftur á móti mikill og virðast flestir svarendur sjá til lands eftir farsóttina,“ segir Lovísa Finnbjörnsdóttir, sviðstjóri fjármálaráðgjafar hjá Deloitte.

Lovísa bendir á að ef Ísland sé borið saman við önnur þátttökulönd þá virðist sem fjármálastjórar á meginlandinu séu komnir lengra í endurheimt, ef svo má að orði komast, heldur en hér á landi. Það bendi til að afleiðingarnar hér á landi hafi að vissu leyti verið meiri en ytra. „Það er til að mynda áhugavert að sjá að hjá tveimur þriðju fjármálastjórum á EMEA-svæðinu virðist rykið vera að setjast og menn eru komnir langt á veg í áætlanagerð og viðspyrnu fyrir það þegar allt kemst í hefðbundið horf á ný. Hlutfallið hérna heima er aftur á móti um fjórðungur. Það er sláandi munur,“ segir Lovísa.

Um fjórir af hverjum tíu svarendum hér heima segja að tekjustreymi sé nú þegar komið á sambærilegan eða betri stað og áður en veiran náði ströndum landsins. 22% til viðbótar telja að svo verði fyrir árslok og 27% að það muni takast árið 2022. Sex prósent telja það muni taka lengri tíma í sínu félagi. Félög í byggingageiranum sögðust öll vera á pari miðað við fyrir Covid og í verslun og þjónustu, framleiðslu og fjármála- og tryggingastarfsemi var hlutfallið um helmingur. Staðan er sýnu verst í flutningum og samgöngum.

„Annað sem okkur fannst áhugavert að sjá er hve lítill hluti telur ólíklegt að meirihluti starfsfólks muni vinna í fjarvinnu til frambúðar, á sama tíma og samskipti við viðskiptavini verði að mestu stafræn í framtíðinni og að fáir telja að fyrirtæki sín muni nýta smærri fasteignir að faraldri loknum. Þetta er áhugavert í því ljósi hversu mikil og sterk umræða hefur verið um að fjarvinnan sé komin til að vera,“ segir Lovísa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .