*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 17. maí 2017 15:17

Íslenskir frumkvöðlar selja

Fyrirtæki í San Fransisco hefur keypt hugbúnaðarfyrirtækið Twigkit sem var stofnað af Bjarka Holm og Hirti Stefan Ólafssyni.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Bandaríska leitarfyrirtækið Lucidworks hefur fest kaup á fyrirtækinu Twigkit, sem stofnað var af Hirti Stefan Ólafssyni og Bjarka Hólm. Twigkit framleiðir hugbúnað sem gerir mönnum kleift að byggja sérsniðnar lausnir og notendaviðmót til að leita í innri gögnum fyrirtækja og setja fram niðurstöðurnar á skýran og einfaldan hátt, að því er segir í fréttatilkynningu.

Á meðal viðskiptavina Twigkit eru mörg af stærstu fyrirtækjum heims, þar með talin Rolls-Royce, Toyota, General Electric, Amgen (móðurfyrirtæki deCODE Genetics), HSBC, Qualcomm, PricewaterhouseCoopers, Financial Times, Vodafone og Thomson Reuters.

Lucidworks, sem hefur bækistöðvar í San Francisco í Bandaríkjunum, þróar hugbúnaðarlausnir til þess að leita í gögnum af ólíku tagi og uppruna. Með kaupunum á Twigkit mun fyrirtækið geta boðið viðskiptavinum heildarlausnir í gagnaleit og -vinnslu, með því að sameina skýrt notendaviðmót og myndræna framsetningu gagna við öfluga leitarvél og gervigreind.

Twigkit var stofnað árið 2009 og hefur höfuðstöðvar í Cambridge á Englandi og skrifstofur í London og Los Angeles. Twigkit er að meirihluta í eigu stofnenda, til móts við fjárfesta og aðra starfsmenn. Bæði Hjörtur og Bjarki munu starfa hjá Lucidworks í framhaldinu og leiða þróun á leitarlausnum innan fyrirtækisins.