Hluthafar í Domino´s á Íslandi sem einnig eiga umboðið fyrir Domino´s í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum fá 24 milljónir punda, eða sem nemur 4,3 milljörðum íslenskra króna fyrir seldan hlut sinn til Domino´s í Bretlandi.

Keypti aftur fyrir helming af söluandvirði

Birgir Bidveldt keypti Domino´s á Íslandi árið 2011 á 560 milljónir, að hluta til með yfirtöku skulda uppá 350 milljónir, kemur fram í frétt á Vísi frá því ári.

Birgir byggði upp félagið á Íslandi frá stofnun þess árið 1993 en seldi það árið 2005 fyrir um 1,1 milljarð króna. Jafnframt seldi hann hlut sinn í Domino´s í Þýskalandi í apríl 2011 sem hann kom að frá árinu 2009. Domino´s á Íslandi hefur byggt upp keðjuna í Noregi og hyggst opna fljótlega í Svíþjóð samkvæmt fyrri frétt Viðskiptablaðsins .

Aðrir hluthafar í félaginu er framtakssjóðurinn EDDA sem keypti fjórðungshlut í félaginu í mars í fyrra, en sjóðurinn er rekinn af verðbréfafyrirtækinu Virðingu.

Sjóðurinn, sem er í eigu nokkurra lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta, selur líkt og aðrir hluthafar part af sínum hlut til breska félagsins sem eignast 49% í íslenska félaginu en 45% í því sem stendur að útrás þess á norðurlöndunum, kemur fram í frétt Telegraph .