Ef Kauphöllin á Íslandi myndi ekki taka hlutabréf Össurar til viðskipta, að eigin frumvkæði, gætu íslenskir hluthafar aðeins selt bréf í félaginu en ekki keypt. Eins og komið hefur fram samþykkti aðalfundur Össurar, þar sem stærstu eigendurnir eru Danskir, að afskrá félagið úr íslensku kauphöllinni. Þessu mótmæltu fulltrúar íslensku lífeyrissjóðanna og lögmaður Stefnis.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Kauphöllin beitir fyrir sig samevrópsku regluverki um kauphallir sem innleitt var hér árið 2007 og heimilar að taka verðbréf til viðskipta án samþykkis útgefanda hafi verðbréfin verið tekin til viðskipta á öðrum verðbréfamarkaði innan evrópska efnahagssvæðisins. Ekki liggur fyrir hvort félagið verði áfram í úrvalsvísitölunni.

„Það er grundvallarréttur hluthafa að geta bæði keypt og selt hlutabréfin. Við vorum í þeirri stöðu að hefði kauphöllin ekki tekið bréfin á ný til viðskipta hefðu íslenskir hluthafar aðeins getað selt bréfin,“ segir Páll Harðarson forstjóri Kauphallarinnar í samtali við Fréttablaðið.

Viðskiptablaðið hefur i ritstjórnargreinum bent á skyldu Kauphallarinnar til að vernda rétt minnihluta eigenda. Einnig hefur verið gagnrýnt hvernig stjórnendur Össurar stóðu að þessari ákvörðun gagnvart íslenskum hluthöfum. Hér eru pistlar Óðins: Ekki sjálfsagt að afskrá Össur og afsökunarbeiðni til Össurar .

Sterkt félag

Hagnaður Össurar árið 2010 var 35 milljónir dollarar eða 4,1 milljarðar króna. Markaðsvirði Össurar er 90 milljarðar eða rúmlega 22 sinnum hagnaður. Össur er fjárhagslega sterkt félag, nettó vaxtaberandi skuldir einungis 1,8 sinnum EBITDA og lausafjárstaða félagsins er góð.