Í fyrra lifðu konur að meðaltali í 83,7 ár og karlar í 80,7 ár. Frá árinu 1986 hafa karlar bætt við sig ríflega sex árum og konur rúmlega fjórum árum í meðalævilengd. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.

Ef horft er á meðaltal tíu ára 2006 til 2016 var meðalævi karla á Íslandi 80,4 ár og í Sviss 80,2 ár og skipuðu þeir fyrsta og annað sætið meðal Evrópulanda. Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Moldavíu, 65,6 ár, Úkraínu 64,3 ár og Rússland, 62,5 ár.

Á sama tíu ára tímabili frá árunum 2006 til 2015 var meðalævi kvenna á Spáni og Frakklandi 85,3 ár og skipuðu þær efsta sætið í Evrópu. Þeim er fylgt eftir af konum í Sviss, 84,7 ár, Liechtenstein, 84,1 ár og Íslandi 83,8 ár.

Lægsti ungbarnadauði í Evrópu

Árið 2016 létust 2.309 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.197 karlar og 1.112. Dánartíðni var 6,9 látnir á hverju 1.000 íbúa og ungbarnadauði var 0,7 barn af hverjum 1.000 fæddum lifandi árið 2016.

„Á tíu ára tímabili, 2006-2015, var meðal ungbarnadauði á Íslandi 1,8 af 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn lágur og hér. Meðal ungbarnadauði var 2,0 í San Marino og Andorra, 2,4 í Finnlandi, 2,5 í Slóveníu og Svíþjóð. Tíðastur var ungbarnadauði í Tyrklandi, 13,8 af hverjum 1.000 lifandi fæddum,“ segir í frétt Hagstofunnar.