Lífslíkur íslenskra karla eru hæstar meðal OECD ríkjanna, eða 81,2 ár, en íslenskar konur, sem lifa að meðaltali til 83,8 ára aldurs eru í 15. sæti OECD ríkja yfir ævilíkur. Er bilið milli ævilengdar kvenna og karla einna minnst hér á landi að því er Hagstofan greinir frá, en vísað er í rit OECD stofnunarinnar um heilbrigðismál í hinum 35 aðildarríkjum stofnunarinnar.

Meðal íbúa OECD ríkjanna hefur meðalævilengdin aukist um rúmlega 10 ár að meðaltali á árunum 1970 til 2015, og er hún nú 80,6 ár. Aukningin hér á landi var þó heldur minni, eða um 8,5 ár, en á Íslandi var ungbarnadauði einna fátíðastur eða sem svarar tveimur látnum á fyrsta ári af 1.000 lifandi fæddum, meðan meðaltalið fyrir OECD löndin var 3,9.

Jafnframt voru hlutfallslega fæst börn hér á landi með lága fæðingarþyngd. Meðalævilengd fólks með háskólamenntun um þrítugt er að jafnaði sex árum lengri en þeirra sem minnstu menntunina hafa.