Átta Íslendingar sem voru í MBAnámi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS) hafa verið ráðgjafar danskra fyrirtækja síðastliðið ár. Íslensku nemendurnir hafa setið í ráðgjafarstjórnum danskra sprotafyrirtækja meðfram MBA-náminu.

Ráðgjafarstjórnirnar eru hluti af verkefni sem nefnist „A-Board“. Fimmtán dönsk fyrirtæki fengu ráðgjafarstjórn á vegum A-Board og CBS sem hjálpaði þeim að skoða viðskiptamódel og stöðu og stefnu fyrirtækjanna.

Mikil ánægja ríkti meðal þeirra Íslendinga sem tóku þátt í verkefninu og voru þeir á einu máli um ágæti þessarar dýrmætu reynslu.

Ánægjan var ekki síðri meðal þeirra fyrirtækja sem nutu ráðgjafarstjórnanna. Stofnandi A-Board og stjórnarformaður allra stjórna verkefnisins er dr. Eyþór Ívar Jónsson en hann er forstöðumaður nýsköpunar- og frumkvöðlakennslu í MBA-námi Viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn.

„A-Board byrjaði sem rannsóknarverkefni fyrir þremur árum og hefur þróast í það að verða hluti af skyldunámi Fulltime MBA-nema við CBS.

Ávinningurinn er mikill fyrir fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu enda hafa flest þeirra gert hjá sér miklar breytingar til batnaðar út frá þeirri ráðgjöf sem ráðgjafarstjórnirnar hafa veitt. Það er líka ánægjulegt að hafa íslenska nemendur sem ráðgjafa í dönskum fyrirtækjum enda hafa Íslendingarnir margt og mikið fram að færa,“ segir Eyþór.

Eyþór segir jafnframt að sú þekking og reynsla sem skapast hafi með rekstri A-Board muni nýtast í nýtt nám á Íslandi, Viðskiptasmiðjuna – Hraðbraut nýrra fyrirtækja, sem Klak – Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins er að undirbúa í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og helstu sérfræðinga Íslands í frumkvöðlafræðum.