Íslensku fyrirtækin Atlas Primer, Mussila og Beedle voru á dögunum valin í hóp 200 efnilegustu sprotafyrirtækja í menntatækni í heiminum í dag, og munu keppa um rúmar 125 milljónir króna, eða eina milljón dala, í verðlaunafé í San Diego í Kaliforníu í byrjun apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Atlas Primer er gervigreindur einkakennari nemenda og aðstoðar með námið á töluðu máli. Mussila er íslenskt EdTech fyrirtæki sem býður upp á skapandi stafrænar námslausnir fyrir börn. Beedle er námskerfi fyrir kennara, foreldra og nemendur.

Íslensku fyrirtækin þrjú voru valin í The Elite 200 hóp fyrirtækja, en fyrirtæki í þeim hópi eru talin álitlegustu sprotafyrirtækin á sviði stafrænnar menntunar á öllum stigum menntakerfisins, frá leikskóla til fullorðinsmenntunar. Um leið fá fyrirtækin eftirsótt sæti í undanúrslitum The GSV Cup sem er stærsta lyftukynningakeppni (e. pitch competition) í heimi fyrir fyrirtæki í menntatækni.

Fyrirtækin voru valin úr alþjóðlegum hópi yfir 750 umsækjenda og hefur ásókn aldrei verið meiri en í ár. Yfir 175 dómarar frá leiðandi fjárfestingasjóðum og öðrum úr geiranum á borð við Accel, General Atlantic, Reach Capital og Owl Ventures, fóru í saumana á hverju fyrirtæki fyrir sig og völdu á endanum þau 200 efnilegustu.

Hinrik Jósafat Atlason, stofnandi og framkvæmdastjóri Atlas Primer:

„Þetta er mjög stórt tækifæri og við ætlum okkur að fara alla leið í þessari keppni. ASU+GSV ráðstefnan er ein sú stærsta í heiminum á þessu sviði og er frábært vettvangur til að kynna íslenska menntatækni. Einnig er mikil heiður að vera valin í hóp 200 efnilegustu fyrirtækjanna því samkeppnin er mikil og þau fyrirtæki sem ná að standa upp úr fá töluverða athygli og eiga greiðari aðgang að helstu fjárfestum á þessu sviði í heiminum í dag."

Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Mussila:

„Mussila stefnir á að verða leiðandi lausn á heimsvísu þegar kemur að stafrænu námi. Börn læra í gegnum leik með þeim kennslulausnum sem Mussila býður upp á. Þessi viðurkenning er hvatning fyrir okkur að halda áfram með þá stefnu sem við höfum sett okkur. Það er spennandi og krefjandi að fá að taka þátt í því að breyta menntakerfinu. Ég hlakka sérstaklega til þess að fá að kynna framtíðarsýn Mussila í Bandaríkjunum núna í apríl".

Deborah Quazzo, framkvæmdastjóri GSV Ventures:

„Við erum á mikilvægum og spennandi tíma fyrir framtíð samfélagsins. Heimsfaraldurinn hefur leitt það í ljós að ED (Menntun) er á brúninni - á mörkum nýsköpunar, umbreytingar, hnattvæðingar. Við höfum alltaf ímyndað okkur nýtt tímabil þar sem allir hafa jafnan aðgang að framtíðinni og Elite 200 fyrirtækin í ár eru táknræn fyrir þá sýn.“