Nemar við Háskóla Íslands geta frá og með 4. apríl fengið aðgang að öllum helstu þróunartólum Microsoft án endurgjalds.

Nemar við aðra íslenska skóla á háskólastigi og framhaldsskólanemar yfir 18 ára aldri munu á næstunni fá sama aðgang.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi en þar kemur fram að þetta er liður í verkefninu Dreamspark, sem er alþjóðlegt átaksverkefni Microsoft sem miðar að því að veita námsfólki sem bestan aðgang að tólum til hugbúnaðarþróunar án tillits til efnahags.

Meðal þeirra hugbúnaðarlausna sem íslenskir nemar fá aðgang að eru Visual Studio, Windows Server, SQL Server Developer, Robotics Developer Studio og Xna Game Studio, en alls eru 16 hugbúnaðarlausnir í boði á vefnum Dreamspark.com.

Flestar nýtast þær aðallega í raungreina- og tölvunarfræðinámi, en allir nemar fá aðgang að þeim og geta til að mynda notað XNA Game Studio til að þróa sína eigin tölvuleiki. Bill Gates, stofnandi Microsoft, hleypti Dreamspark af stokkunum fyrir rúmu ári og hafa nemendur um heim allan nýtt sér verkefnið til að sækja hugbúnað í milljónum eintaka.

„Það er mikið ánægjuefni fyrir Microsoft Íslandi að geta boðið Dreamspark hér á landi,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi í tilkynningunni.

„Íslenskir nemendur fá nú óheftan aðgang að öflugustu þróunartólum Microsoft og geta þannig strax í námi sínu lagt grunninn að frumkvöðlastarfi framtíðarinnar. Þekkingariðnaðurinn verður án efa í fararbroddi atvinnuuppbyggingar á heimsvísu á næstu árum og er mikilvægt að íslenskir nemendur hafi tækin, tólin og þekkinguna til að sú uppbygging verði sem mest hér á landi. Við lítum á þetta sem mikilvæga viðbót við framlag okkar til uppbyggingar á íslensku atvinnulífi og vonumst við til að Dreamspark muni mælast jafn vel fyrir og fastgengi krónunnar í Microsoft-viðskiptum, innleiðing Bizspark og efling símenntunar meðal íslensks tæknifólks.“