Væntingavísitala Gallup var birt í morgun og mælist nú 61,4 stig, sem er lægsta gildi hennar frá því að Gallup hóf að mæla væntingar íslenskra neytenda í mars 2001.

Allar helstu undirvísitölur lækka talsvert milli mánaða og sérstaklega athyglisvert er lágt gildi vísitölu fyrir mat á efnahagslífinu, sem mælist nú 45 stig.

Við vísitölugildið 100 eru jafn margir svarendur könnunarinnar bjartsýnir og svartsýnir. Sé gildið lægra eru fleiri svartsýnir en sé það hærra en 100 eru neytendur bjartsýnir.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis. „Ekki er að efa að gengisfall krónu og meðfylgjandi verðbólguskot hefur hér mikil áhrif, auk þess sem þrengra aðgengi heimilanna að fjármagni og umræða um yfirvofandi efnahagslægð hérlendis sem erlendis skiptir einnig máli,“ segir í Morgunkorni.

Þar segir einnig að líta megi á lágt gildi væntinigavísitölunnar sem enn eina vísbendinguna um að einkaneysla muni dragast saman hér á landi.