Væntingavísitala Gallup (VVG) hækkaði um 9,7 stig á milli janúar og febrúar og mælist vísitalan nú 91,5 stig. Er hér um að ræða fimmta hæsta gildi sem hún hefur náð frá því í apríl 2008 þótt enn séu öllu fleiri svartsýnir en bjartsýnir á ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum, eins og bent er á í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka .

Þrátt fyrir þessa jákvæðu hreyfingu er vísitalan enn nokkuð frá 100 stiga gildinu sem markar jafnvægi á milli bjartsýni og svartsýni neytenda á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Í Morgunkorninu er bent á að vísitalan hafi í raun aðeins aðeins þrívegis náð 100 stigunum á síðastliðnum sjö árum.

„Það hefur komið okkur nokkuð á óvart að hún hafi í raun ekki mælst hærri síðasta árið eða svo, þar sem það stingur í stúf við þróun á helstu hagstærðum er varða fjárhagsstöðu heimila. Ber hér kannski hæst að nefna þann vöxt sem verið hefur á kaupmætti launa að undanförnu, en sá vöxtur hefur ekki mælst meiri frá aldamótum. Jafnframt hefur staðan á vinnumarkaði haldið áfram að batna, og virðist staðan þar ekki hafa verið betri frá hruni sem er orðinn dágóður tími,“ segir þar.

Áhugavert er að þegar mælingin á vísitölunni er greind eftir kyni svarenda kemur í ljós að hækkunin nú á sér alfarið rætur í minnkandi svartsýni kvenna, á meðan væntingar karla standa nánast í stað. Undirvísitala fyrir konur hækkar þannig um rúmlega 22 stig í febrúar frá fyrri mánuði, og mælist nú 79,3 stig en vísitala fyrir karla er 102,4 stig. Konur hafa nær ávallt verið svartsýnni en karlar í mælingum á VVG, en munurinn var með mesta móti síðustu mánuði.

Að lokum segir í Morgunkorninu: „Sjá má af undirvísitölunum að Íslendingar vænta þess að ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar muni batna frá núverandi ástandi, en við því hafa þeir raunar búist frá því snemma árs 2008. Fyrir hrun var þessu öfugt farið, en frá miðju ári 2004 til mars 2008 var gildi vísitölunnar sem mælir mat neytenda á núverandi ástandi ávallt hærra en þeirrar sem mælir mat á væntingum til 6 mánaða. Töldu neytendur þá núverandi ástand svo gott að það myndi varla batna upp frá þessu, sem er andstætt við stöðuna nú.“