Forsvarsmenn íslenskra verslana segja eðlilegt að verð á Íslandi sé hærra en á mun stærri mörkuðum erlendis. Meðal orsaka sé smæð markaðarins, hár fastur kostnaður, háir vextir, flutningskostnaður og óstöðugur gjaldmiðill. Þetta kom fram á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um samkeppnishæfni íslenskra verslana á Grand hóteli á dögunum.

Fjölmiðlar hjálpa ekki

Í pallborðsumræðum sagði Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og varaformaður rekstrarfélags Kringlunnar, að íslensk verslun byggði við mikinn ímyndarvanda. Sífellt væri alhæft um að íslensk verslun væri léleg og ekki að skila sínu þrátt fyrir að fjöldi aðila væri að standa sig vel. Umfjöllun fjölmiðla hjálpaði ekki til, ávallt væru birtar fréttir um að verslanir væru að okra en það væri síður fréttnæmt þegar verslanir væru með góð verð. Hún sagði að til að íslenskar verslanir gætu verið samkeppnishæfar þyrftu þær helst að vera skuldlausar og nefndi Pfaff sem dæmi.

Íslenskir neytendur gríðarlega kröfuharðir

„Við skuldum ekki eina einustu krónu, fyrirframgreiðum allt og fáum 2-3% afslátt vegna þess,“ sagði Margrét. Hún sagði jafnframt að íslenskir neytendur væru gríðarlega kröfuharðir þrátt fyrir smæð markaðarins. „Aðalvandinn er að Íslendingar eru 330 þúsund. Þetta væri allt annað ef við værum 500 þúsund eða milljón. Íslenski neytandinn er rosalega kröfuharður og vill fá mikið úrval,“ sagði hún. Jón Björnsson, forstjóri Festi hf., sem meðal annars rekur verslanir Krónunnar og Elko, sagði að umræðan væri oft byggð á tilfinningum en mikilvægt væri að horfa á staðreyndir. Frá árinu eftir hrun hefði vísitala neysluverðs hækkað um 24% en fatnaður og skór hefðu einungis hækkað um 1,3% og sjónvörp lækkað um 27%. Á meðan hefðu áfengi, tóbak og póstþjónusta hækkað gífurlega. Hægt væri að sjá á gögnum hvernig verðþró- unin væri og betra væri að styðjast við þau heldur en einstaka leikfangakassa eða bíldekk, en þarna vísaði hann í fjölmiðlaumfjöllun um verðhækkanir undanfarnar vikur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.