Væntingavísitala Gallup hefur lækkað um 13 stig á milli mánaða og mælsit nú 88,1 stig, samkvæmt nýjustu mælinugum Gallup. Vísitalan lækkað einnig eitthvað í júní.

Greiningardeild Glitnis bendir á að neytendur hafi ekki verið svartsýnni í rúm fjögur ár, en vísitölugildi undir 100 merkir að fleiri eru svartsýnir en bjartsýnir á ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum.

Lækkunin á sér rætur í öllum undirvísitölum Væntingavísitölunnar. Mat neytenda á núverandi ástandi lækkar þó minna en væntingar þeirra til sex mánaða, segir greiningardeildin, en vísitalan er mælir mat á núverandi stöðu er 119,4 og nokkuð yfir 100 gildinu.

?Sú sem mælir væntingar til næstu sex mánaða stendur hins vegar í 67,2 og hefur ekki staðið svo lágt frá haustdögum 2001. Þá, eins og nú, blasti við að skeið þenslu og kaupmáttaraukningar væri á enda í kjölfar snarprar gengislækkunar krónu," segir greiningardeild Glitnis.

?Íslenskir neytendur eru enn nokkuð jákvæðir gagnvart atvinnuástandi hérlendis, enda atvinnuleysi hverfandi og enn töluvert um laus störf. Mælist gildi þeirrar undirvísitölu 105,5 en lækkar raunar töluvert milli mánaða," segir greiningardeildin.

Glitnir telur að neytendur lítist verr á efnahagslífið, en sú vísitala stendur nú í 74,3. Mikill viðsnúningur varð í þeirri vísitölu í kjölfar lækkunar krónu og gagnrýnnar umfjöllunar erlendis síðla vetrar, og hefur hún verið í námunda við gildið 80 allar götur síðan.

Konur eru almennt svartsýnni en karlar, hinir eldri eru neikvæðari en þeir yngri, og bjartsýni eykst einnig með auknum tekjum svarenda, segir í niðurstöðum mælingar Gallup.