Væntingavísitala Gallups lækkaði um tæp 13 stig milli september og október og stendur gildi hennar nú í 75,9 stigum. Vísitalan mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og þegar hún er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir.

Greining Íslandsbanka fjallar um þróun vísitölunnar í dag en í grein hennar á vefsvæði bankans kemur fram að samkvæmt vísitölunni hafa íslenskir neytendur ekki verið svartsýnni á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum síðan í nóvember í fyrra.

Þá kemur fram að vísitalan sem mælir mat neytenda á atvinnuástandi hafi lækkað mest á milli mánaða eða um nítján stig en minnst lækkar mat neytenda á núverandi ástandi eða um átta stig. Í greininni er þó minnst á að vísitalan hefur langoftast lækkað á milli september og október en að undarlegt sé að hún hafi lækkað svo mikið nú þegar útlit er fyrir að hagur neytenda fari batnandi.