„Íslenskir neytendur eiga enn töluvert í land með að teljast vera bjartsýnir á ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var í morgun,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

„Mældist gildi hennar nú í febrúar 59,9 stig og lækkar lítillega, eða um 1,6 stig, frá því í janúar. Virðist því landinn ekki enn vera búin að jafna sig eftir svartsýniskastið sem hann tók síðastliðið haust en sem kunnugt er þá tók vísitalan verulegan kipp niður á við í október og mældist þá 32 stig eftir nokkra hækkun mánuðina þar á undan. Vísitalan hefur farið hæst í 69,9 stig frá því að kreppan skall á sem var í ágúst síðastliðnum. Þó er óhætt að segja að nokkuð léttara sé yfir landanum nú en á sama tíma í fyrra þegar vísitalan mældist 46,2 stig en frá þeim tíma hefur hún að meðaltali mælst 56,1 stig. Vístalan mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins, og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir.“

Flestar undirvísitölur lækka

„Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar, að mati á efnahagslífinu undanskildu, lækkuðu á milli janúar og febrúar. Þannig lækkuðu væntingar íslenskra neytenda til aðstæðna í efnahags-og atvinnumálum þjóðarinnar eftir 6 mánuði um hálft stig sem er lítið og mælist sú vísitala nú 91,3 stig. Mat á núverandi ástandi lækkaði nokkuð meira, eða um 3,2 stig, en sú vísitala mælist 12,7 stig. Gildi þessarar vísitölu fyrir núverandi ástand hefur jafnframt lítið breyst síðasta árið en hún hefur að meðaltali verið um 12 stig. Mest var lækkunin á vísitölunni sem mælir mat á atvinnuástandinu en hún lækkaði um 6,3 stig milli mánaða og mælist nú 60,1 stig. Á hinn bóginn hækkaði sú vísitala sem mælir mat á efnahagslífinu lítillega, eða sem nemur um 1,4 stig, og mælist hún nú 57,9 stig,“ segir í Morgunkorni.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að væntingarvísitalan í Þýskalandi hefur ekki mælst hærri síðan árið 1991. Til samanburðar stendur vísitalan þar í landi, sem stendur einna best í samanburði við ríki Evrópu, um 111 stig.