Væntingavísitala Gallup, sem birt var í morgun, hækkaði í febrúar um rúmlega 11 stig frá fyrri mánuði og fór í sitt hæsta gildi síðan byrjað var að mæla væntingar neytenda með þessum hætti árið 2001, segir greiningardeild Íslandsbanka.

?Íslenskir neytendur telja ástand efnahags- og atvinnulífsins gott og horfurnar enn betri," segir greiningardeildin.

Ástæðurnar má trúlega rekja til mikillar umfjöllunar um gott gengi íslenskra fyrirtækja í ársbyrjun og hækkana í Kauphöllinni, auk þess sem frekari álversframkvæmdir komu af krafti inn í umræðuna um síðustu mánaðamót.

Væntingar almennings hækkuðu um tæp 5 stig milli mánaða en væntingar til 6 mánaða hækkuðu þrefalt meira, eða um rúm 15 stig.

Mat neytenda á efnahagsástandinu hækkaði tvöfalt meira en mat þeirra á vinnumarkaði, eða um 16 stig á móti 8. Yngsti hópur svarenda, fólk á aldrinum 16-24 ára, er til muna bjartsýnni en þeir sem eldri eru.

Bjartsýni þeirra tekjuhæstu eykst mest, en væntingavísitala fólks með 550 þúsund króna mánaðarlaun eða meira hækkaði um tæp 19 stig meðan þeir sem laun undir 250 þúsund krónur á mánuði juku væntingar sínar aðeins um rúm 3 stig.

Væntingavísitalan er byggð á símakönnun sem gerð er fyrstu tvær vikurnar í hverjum mánuði.