Skartgripa- og fatahönnuðir frá Íslandi voru staddir í Belgíu í síðustu viku í tengslum við nýtt verkefni Útflutningsráðs sem ber heitið „Frá borg til borgar”.

Markmið verkefnisins var að kynna íslenska skartgripa- og fatahönnun, stofna til tengsla við hönnuði erlendis og reyna að mynda viðskiptasambönd.

Þetta kemur fram á vef Útflutningsráðs. Fyrirtækin sem tóku þátt voru Xirena, RosaDesign, Diza ehf., Sign og Gullkúnst.

Hönnuðirnir sýndu framleiðslu sína í Antwerpen og Brussel og sátu fundi með erlendum hönnuðum.

Hildur Inga Björnsdóttir, framkvæmdastjóri og hönnuður hjá Xirena, sagði ferðina hafa gengið í alla staði mjög vel.

„Ég tel að Belgía sé að mörgu leyti mjög áhugavert land fyrir íslenska hönnun þar sem smekkur Belga liggur einhvers staðar mitt á milli Frakklands og Þýskalands, þ.e. frekar formrænn ásamt töluverðri litagleði. Þrátt fyrir að Belgía sé frekar smátt í sniðum er Brussel auðvitað mjög alþjóðleg borg sem býður einnig upp á frekari tengingar og viðskiptasambönd,” segir Hildur.