Alþingi Íslendinga samþykkti í kvöld ríkisábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda vegna greiðslna sem hljótast munu vegna Icesave málsins.

Frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra um málið var samþykkt í kvöld með 33 atkvæðum gegn 30.

Allir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með frumvarpinu. Það gerðu líka allir þingmenn Vinstri grænna að undanskildum Lilju Mósesdóttur og Ögmundu Jónassyni. Þá greiddi Þráinn Bertelsson einnig atkvæði með frumvarpinu.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.

Frumvarpið verður fært Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands á morgun til staðfestingar en ríkisráðsfundur verður haldinn á Bessastöðum á morgun.