Sprota- og nýsköpunarráðstefnan TechBBQ var haldin í sjöunda sinn í Kaupmannahöfn fyrir tveimur vikum, en hún er sú stærsta sinnar tegundar í Skandinavíu. Íslendingar létu sig ekki vanta. Alls komu fulltrúar fimmtán íslenskra nýsköpunarfyrirtækja, auk nokkurra frá nýsköpunarsjóðum, og að sjálfsögðu blaðamaður Viðskiptablaðsins.

Sprotarnir kynntu sig í sendiráðinu
Íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn hélt svo móttöku í sendiráðinu sjálfu á fyrri degi ráðstefnunnar fyrir alla Íslendingana auk nokkurs fjölda áhugasamra fjárfesta. Tveggja hæða rúta sótti móttökugestina á ráðstefnuna og ók þeim í sendiráðið, þar sem Helga Hauksdóttir, nýskipaður sendiherra, tók við gestum, en Helga hafði þá tekið til starfa aðeins um sjö vikum fyrr.

Eftir stutta tölu sendiherra hélt Davíð Helgason – stofnandi og fyrrverandi framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Technologies, sem var stofnað í Kaupmannahöfn árið 2004 – erindi um sprotaumhverfið á Íslandi.

Því næst stigu nýsköpunarfyrirtækin á stokk hvert af öðru og kynntu hugmyndir sínar og starfsemi í stuttu máli. Meðal þeirra má nefna CrankWheel, sem býður upp á sérsniðna skjádeililausn sem gerir símasöluteymum kleift að bæta myndrænni kynningu við í miðju símtali án undirbúnings; Genki instruments, sem gerir tónlistarmönnum kleift að stjórna hljóði með handahreyfingum með hring á höndinni; og reiðhjólafyrirtækið Lauf Forks, sem sérhæfir sig í malarhjólum og hjólagöflum.

Einlægur áhugi
Helga segir viðburðinn hafa heppnast mjög vel. Góð mæting hafi verið bæði meðal fyrirtækja og fjárfesta, en tugir norrænna fjárfesta voru á staðnum. „Við vorum ánægð með hversu mörg fyrirtæki nýttu tækifærið til að kynna sig , og ekki síður hvað danskir fjárfestar voru spenntir fyrir íslensku sprotafyrirtækjunum. Mér fannst þeir sýna einlægan áhuga og við vonum að fyrirtækin hafi náð að mynda góð tengsl sem muni nýtast þeim til framtíðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .