Íslenskir vogunarsjóðir áttu 30,7 milljarða króna um síðustu mánaðamót samkvæmt tölum Seðlabankans. Eignir vogunarsjóða höfðu þá aukist um 48% frá því á sama tíma í fyrra, eða um 9,9 milljarða. Mest áttu þeir í skráðum hlutabréfum.

Eignir sjóðanna í afleiðusamningum þrefölduðust á sjö mánuðum. Sjóðirnir áttu 454 milljónir króna í afleiðum um síðustu áramót, en 1,4 milljarða um síðustu mánaðamót. Öll upphæðin var vegna afleiðusamninga við banka og sparisjóði. Lífeyrissjóðir áttu rúmlega þriðjung hlutdeildarskírteina í vogunarsjóðum. Eignarhaldsfélög áttu um 7% og heimili um 1,5%.