Námskeið um meðferð ávaxta og grænmetis í verslunum hefur verið tilnefnt til evrópskrar gæðaverðlauna hjá Leonardó, samstarfsáætlun Evrópusambandsins. Verðlaunin verða tilkynnt og afhent í næstu viku. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt verkefni hlýtur slíka tilnefningu, en það er meðal 19 annarra evrópskra verkefna sem tilnefnd eru. SVÞ og aðildarfyrirtæki þeirra áttu frumkvæði að verkefninu og starfsmenn Iðntæknistofnunar sáu um framkvæmd þess. Verkefnið hlaut gæðaviðurkenningu Leonardó á Íslandi í nóvember sl.

Ástæða tilnefningarinnar er góður árangur af mannaskiptaverkefni sem fólst í því að sérfræðingur á vegum Iðntæknistofnunar fór í námsferð til Hollands og Bretlands til að kynnast starfsfræðslu um meðferð ávaxta og grænmetis í verslunum í þessum löndum. Síðan hafa verið haldin námskeið og þannig hefur verið hægt að miðla reynslu frá öðrum löndum hér á landi.

Rétt meðferð ávaxta og grænmetis í verslunum skiptir miklu máli fyrir dagvöruverslanir og neytendur. Of mikil rýrnun í þessum viðkvæmu vörum hefur í för með sér mikið fjárhagstjón og hefur þannig áhrif á verð vörunnar. Því er rétt geymsla, flutningur og önnur meðferð gríðarlega mikilvæg. Hitt er ekki síður mikilvægt að uppröðun og framsetning á ávöxtum og grænmeti í versluninni sé smekkleg og aðlaðandi fyrir viðskiptavini. Í Danmörku hafa mælingar sýnt að vönduð framsetning á þessum vörum getur tvöfaldað söluna.

Mannaskiptaferðin, sem styrkt var af Leonardóáætluninni, var hluti af þeirri þarfagreiningu sem fór fram sem undirbúningur að verkefninu. Einnig var kannað hvaða óskir verslanirnar hefðu um lengd og fyrirkomulag námsins.

Síðan hafa verið haldin fjölmörg námskeið fyrir starfsmenn sem annast grænmetistorg verslana. Hvarvetna hafa námskeiðin fengið mikið lof, enda mjög til þeirra vandað og þau sniðin að þörfum og óskum hverrar verslunar.