*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 28. apríl 2021 19:44

Íslenskt brugghús í útrás vestur um haf

Og Natura, sem framleiðir áfengi sem unnið er úr íslenskum hráefnum, mun brátt hefja sölu á vörum sínum í Bandaríkjunum.

Sveinn Ólafur Melsted
Ragnheiður Axel Eyjólfsdóttir og Liljar Már Þorbjörnsson eru hugarsmiðir brugghússins Og Natura.
Antoine Méra

Brugghúsið Og Natura framleiðir og selur áfengi sem unnið er úr íslenskum jurtum og hráefnum. Meðal framleiðsluafurða brugghússins eru náttúruvín, bjór, gin, vodka, líkjörar og blandaðir kokteilar. Hugmyndasmiðir Og Natura eru vinirnir Ragnheiður Axel Eyjólfsdóttir og Liljar Már Þorbjörnsson. Leiðir þeirra lágu fyrst saman í gegnum samfélagsmiðilinn Twitter fyrir fjórum árum og segir Ragnheiður að þau hafi strax náð mjög vel saman. „Við fórum fljótlega að velta fyrir okkur möguleikanum á að prófa í sameiningu að brugga bjór og náttúruvín. Við ákváðum að byrja á að brugga einn bjór en svo var þetta fljótt að vinda upp á sig og framleiðslan fljótt komin á mikla siglingu."

Í upphafi seldi félagið vörur sínar í Fríhöfninni og til innlendra veitingastaða en nú í dag má einnig nálgast vörurnar í Vínbúðinni.

Ragnheiður kveðst í raun óvart hafa sogast inn í íslenska matar- og drykkjarheiminn fyrir um sex árum, en fram að því starfaði hún sem hönnuður. Á þessum árum hefur Ragnheiður svo sannarlega ekki setið auðum höndum. Hún hefur starfað hjá og er meðal hluthafa í fjölskyldufyrirtækinu Íslensk hollusta, Arctic Mood ehf, auk fyrrnefnds Og Natura.

„Ég hafði stofnað flökkubrugghús og langaði að fara í frekari áfengisframleiðslu." Úr varð að Og natura fjárfesti í gerjunar- og eimingartækjum. „Við höfðum aðgengi að mögnuðu íslensku hráefni, villtum berjum og jurtum sem gerði allt þróunarferlið skemmtilegt ævintýri."

Sókn vestanhafs

Á síðasta ári stofnaði Og Natura LLC félag í Bandaríkjunum með það í huga að hefja sölu á vörum sínum á austurströndinni. „Við vorum búin að leggja á okkur gríðarlega mikla vinnu við að afla okkur tilskilin leyfi og ganga frá öðrum málum þar til að fá vörurnar samþykktar," segir Ragnheiður. En babb kom í bátinn er COVID-19 faraldurinn skall á. „Ég var einmitt stödd úti í Bandaríkjunum að leggja lokahönd á undirbúninginn þegar faraldurinn hófst. Þá lokaði nánast landið og því fóru áætlanir okkar í Bandaríkjunum í frost."

Ragnheiður og Liljar dóu þó ekki ráðalaus og ákváðu að nýta tímann til að endurhanna útlit vörulínunnar. „Úr varð gin þrenna WILD GIN sem sækir innblástur í villta íslensk náttúru og er á leið inn á Bandaríkjamarkað í næsta mánuði. Það eru þrjár verslanir í New York sem ætla að vera með vörurnar til sölu en auk þess erum við með dreifingaraðila í Portland, Maine," segir Ragnheiður, himinlifandi yfir því að sóknin á Bandaríkjamarkað sé loks að verða að veruleika.

Spurð um hvort félagið stefni á frekari landvinninga á erlendri grundu, segir Ragnheiður að það velti á hvernig móttökur vörurnar fái vestanhafs. Þó hafi breskt fyrirtæki sem rekur um 400 veitingastaði og bari þegar sýnt vörum Og Natura áhuga. „Þau stefna á að panta vörur frá okkur í júní en þetta á allt saman eftir að koma betur í ljós á næstu misserum."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Skiptar skoðanir eru um hvernig þurfi að bregðast þurfi við þennslu á fasteignamarkaði.
  • Viss skyldleiki er milli kaupaukamála sem FME tók ákvarðanir í og afhendingu á hlutum í Landsbankanum til starfsmanna. Niðurstaðan varð þó nokkuð ólík.
  • Rætt við Rut Kristjánsdóttur, nýráðinn sérfræðing hjá Arctica Finance, um nýja starfið, fyrstu skrefin í geiranum og útivist.
  • Íslenskt fyrirtæki hefur hafið framleiðslu á pappakössum til að koma til móts við lítil- og meðalstór fyrirtæki.
  • Fjallað er um samning Íslandsstofu og systurstofu hennar í Svíþjóð.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem skrifar um ríkisstarfsmann mánaðarins Ásgeir Jónsson.
  • Sérblaðið Heimili og framkvæmdir fylgir með Viðskiptablaðinu.